Sönghátíðin Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri

Helgina 24. – 26. júní 2016 var haldin sönghátíðin Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri, þar sem boðið var upp á þrenna tónleika og ókeypis tónlistarsmiðju fyrir börn. Hátíðin er ein sú elsta á landinu, en hún var haldin í 26. skipti nú í ár. Markmið hátíðarinnar eru fjölþætt, m.a að bjóða upp á árlega tónlistarhátíð með klassískri tónlist í flutningi fyrsta flokks tónlistarmanna, að gefa heimafólki í Skaftárhreppi og ferðamönnum tækifæri til að njóta lifandi tónlistar og nota um leið frábæran flygil sem staðsettur er í félagsheimilinu Kirkjuhvoli, að hvetja til nýsköpunar í tónlist með því að fá íslenskt tónskáld til að semja nýtt verk til frumflutnings á hátíðinni, að vinna í tónlistaruppeldi með ókeypis tónlistarsmiðju fyrir börn, sem einnig fá dýrmætt tækifæri til að koma fram með því að taka þátt í lokatónleikum hátíðarinnar með atvinnutónlistarmönnum og að auka þannig áhuga barnanna og fjölskyldna þeirra á tónlist.

 

Á tónleikunum í lok júní 2016 komu fram söngvararnir Benedikt Kristjánsson, Valgerður Guðnadóttir og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir með gítarleikaranum Francisco Javier Jáuregui og píanóleikurunum Hrönn Þráinsdóttur og Bjarna Frímanni Bjarnasyni, sem einnig lék á víólu. Flytjendurnir eru allir með framhaldsnám að baki í erlendum tónlistarskólum og hafa komið víða fram á Íslandi og erlendis og unnið til verðlauna á alþjóðlegum vettvangi.

 

Á hátíðinni voru flutt klassísk verk eins og Malarastúlkan fagra (Die Schöne Müllerin) eftir Schubert, tónlist eftir Mozart og frá Suður-Ameríku eftir Heitor Villa-Lobos og fleiri sem og tónlist úr kvikmyndum, söngleikjum og Disney-teiknimyndum. Lokatónleikar hátíðarinnar voru sérstaklega vel sóttir, en þeir voru fjölskyldutónleikar, þar sem allir tónlistarmenn hátíðarinnar komu fram með aðlaðandi efnisskrá fyrir alla aldurshópa. Á meðan á hátíðinni stóð tóku fjórtan börn, á aldrinum 4-11 ára, þátt í ókeypis tónlistarsmiðju sem Þórdís Heiða Kristjánsdóttir og Hildur Guðný Þórhallsdóttir stjórnuðu, en þær hafa áralanga reynslu af því að vinna í ýmsum tónlistarverkefnum með börnum. Krakkarnir fóru í ýmsa leiki, sungu ný og gömul lög og spunnu. Börnin í eldri hópnum sömdu sitt eigið lag með texta um „káta krakka sem kyrja lag á Kirkjubæjarklaustri“, sem þau fluttu á fjölskyldutónleikunum með söng og hljóðfæraleik. Þau tóku líka undir með söngkonum hátíðarinnar, Valgerði Guðnadóttur og Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur í íslenskum og erlendum lögum. Sjá má nokkur myndbönd af tónleikunum á YouTube stöð hátíðinnar:

 

7-11 ára börn syngja og leika

4-6 ára börn syngja og leika

Börn úr tónlistarsmiðju taka undir í Spagettíkarlinum með Guðrúnu Jóhönnu

Börn úr tónlistarsmiðju taka undir í lögum úr Söngvaseið með Valgerði Guðnadóttur

 

Áhersla Kammertónleikanna á listuppeldi barna hefur vakið sérstaka athygli, en þetta er í fjórða árið í röð sem börnum býðst að taka þátt í ókeypis tónlistarsmiðju undir leiðsögn reyndra og sérmenntaðra leiðbeinenda. Það er ljóst að til þess að klassísk tónlist fái að blómstra er nauðsynlegt að kynna hana fyrir ungu kynslóðinni sem fyrst svo börnin læri að njóta tónlistar, bæði sem áheyrendur og flytjendur. Eins mikilvægt og það er að flytja klassísk verk tónlistarbókmenntanna er einnig mikilvægt að ný verk séu samin til þess að tónlistin haldi áfram að þróast og vera hluti af okkar tíma. Þess vegna er eitt íslenskt tónskáld á ári fengið til þess að semja nýtt verk til frumflutnings á hátíðinni. Hildigunnur Rúnarsdóttir er níunda tónskáldið sem semur fyrir Kammertónleikana, en hún samdi verkið Pan on the River fyrir mezzósópran, gítar og víólu og má sjá upptöku af frumflutningnum hér á YouTube.

 

Ég þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg til þess að sönghátíðin Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri skyldi hafa orðið að veruleika helgina 24. – 26. júní 2016 og ég hlakka til að sjá ykkur á næstu hátíð, helgina 30. júní – 2. júlí 2017.

 

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, listrænn stjórnandi.

 

 

Kammertónleikar á Kirkjubæjarklaustri - Sönghátíð og tónlistarsmiðja fyrir börn eru á Facebook

https://www.facebook.com/kammertonleikar